Í fyrsta sinn í 21 ár

Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof unnu frækinn sigur.
Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof unnu frækinn sigur. Jozo Cabraja

Sænska liðið Sävehof tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla með því að leggja þýska liðið Hannover-Burgdorf að velli, 34:25, í síðari leik liðanna í umspili keppninnar.

Fyrri leiknum í Þýskalandi lauk með með fjögurra marka sigri Hannover-Burgdorf og var því verk að vinna fyrir Sävehof á heimavelli, sem vann einvígið samanlagt 64:59.

Sænsk lið hafa ekki riðið feitum hesti frá einvígjum sínum við þýsk lið á þessari öld og gerðist það raunar síðast árið 2003, fyrir 21 ári síðan, að sænskt félagslið hafði betur í einvígi gegn þýsku félagsliði í Evrópukeppni.

Annað þýskt lið bíður

Í átta liða úrslitum bíður Sävehof enn erfiðara verkefni og aftur gegn þýsku liði, Teiti Erni Einarssyni og félögum hjá Flensburg.

Tryggvi Þórisson lék með Sävehof í kvöld en komst ekki á blað enda fyrst og fremst sterkur varnarmaður.

Heiðmar Felixson er þá aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert