FH er deildarmeistari karla í handknattleik en úrslitin réðust endanlega á Akureyri í kvöld þar sem KA-menn gerðu sér lítið fyrir og unnu Val á sannfærandi hátt, 34:29.
Þar með er FH með 35 stig og Valur 32 fyrir lokaumferð deildarinnar sem fram fer á föstudagskvöldið.
KA komst með sigrinum upp fyrir Stjörnuna og í sjöunda sætið með 18 stig og gulltryggði sér sæti úrslitakeppninni. Það var þó í höfn fyrr í kvöld þegar Grótta tapaði fyrir FH.
Einar Rafn Eiðsson skoraði 7 mörk fyrir KA í kvöld, Skarphéðinn Ívar Einarsson 6 og þeir Dagur Árni Heimisson og Einar Birgir Stefánsson 5 mörk hvor.
Magnús Óli Magnússon skoraði 5 mörk fyrir Val og þeir Tjörvi Týr Gíslason, Benedikt Gunnar Óskarsson, Allan Norðberg og Andri Finnsson gerðu 4 mörk hver.