„Þetta hafa verið tíu ár af sársauka,“ sagði Sigurjón Guðmundsson, markvörður HK, í Punktalínunni eftir sigur liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeildinni í handknattleik í Garðabænum í gær.
Leiknum lauk með sex marka sigri HK, 34:28, en Sigurjón átti stórleik í markinu og varði alls 19 skot í leiknum. Með sigrinum tryggði HK veru sína í efstu deild á næstu leiktíð.
„Við erum búnir að vera berjast lengi í þessu og við fengum þennan úrslitaleik í kvöld þar sem við gáfum allt í þetta,“ sagði Sigurjón.
„Mér fannst ég líka skulda aðeins, ég hef ekki verið alveg jafn góður eftir áramót og ég var fyrir áramót,“ sagði Sigurjón meðal annars en umræðan í heild sinni er í spilaranum hér fyrir ofan.