Gefur augaleið að þeir eru með betra lið

Einar Rafn Eiðsson úr KA með boltann í kvöld.
Einar Rafn Eiðsson úr KA með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Gústafsson leikmaður KA var nokkuð brattur þrátt fyrir tap gegn FH í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta.

Spurður að því hvað hefði betur mátt fara í leiknum í dag sagði Ólafur þetta:

„Við vorum að spila ágætlega og halda lengur út en í leiknum síðasta föstudag. Við vorum mjög góðir varnarlega gegn þeim en slökum síðan aðeins á í síðari hálfleik og þeir voru að vinna of margar einn á einn stöður. Þetta er í raun spennandi leikur í 57 mínútur en eftir það var þetta brekka."

Þið byrjið á því að spila 3-3 í vörninni í upphafi en færið ykkur mjög fljótlega niður í 6-0 vörn. Var þessi vörn ekki að ganga hjá ykkur?

„Jú hún var alveg að ganga og leikurinn var nánast jafn þegar við spiluðum þessa vörn. Þetta er vörn sem tekur gríðarlega orku og við bara þurftum að sprengja þetta aðeins upp með þessari vörn.

Við komum inn í þessa keppni í 8. sæti og þeir efstir þannig að það gefur augaleið að þeir eru með betra lið en við og þá þarf að reyna koma andstæðingnum á óvart og ég held það hafi tekist með þessari vörn. Það tekur samt mikla orku og við fórum aftur aðeins í þetta í lokin og það er aldrei að vita nema við byrjum næsta leik eins."

Einar Rafn Eiðsson er kominn með tvær brottvísanir fljótlega í fyrri hálfleik. Hafði það mikil áhrif á ykkar skipulag það sem eftir lifði leiks?

„Nei ég tók allavega ekki eftir því. Ég vissi að hann væri kominn með tvær brottvísanir. Við erum síðan með stutta skiptingu í síðari hálfleik þar sem við fáum Patrik inn í bakvörðinn fyrir Einar þannig við leystum þetta þannig."

KA er komið upp við vegg í þessu einvígi en leikurinn á Akureyri er eftir. Á KA möguleika í næsta leik?

„Já algjörlega. Við erum með frábæra stuðningsmenn hérna á útivelli og enn betri stuðning í KA-heimilinu. Við fáum gríðarlega orku úr KA-heimilinu. Við þurfum að skoða taktíkina en það verður allt lagt í sölurnar á sunnudag."

Eitthvað sem kom þér á óvart í leik FH í kvöld?

„Nei ég get ekki sagt það. Þeir eru með gríðarleg einstaklingsgæði. Þó maður viti hvað þeir séu að fara gera þá komast þeir gríðarlega langt á þessum gæðum sem þeir hafa. Nú þurfum við bara að fara skoða video og læra af leiknum í kvöld og halda áfram," sagði Ólafur í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert