Tekur fram skóna í fjarveru Evrópumeistarans

Arnór Atlason og Mikael Aggefors, Danmerkurmeistarar með Aalborg 2017.
Arnór Atlason og Mikael Aggefors, Danmerkurmeistarar með Aalborg 2017. Ljósmyndir/Aalborg Håndbold

Sænski handknattleiksmarkvörðurinn Mikael Aggefors hefur tekið skóna af hillunni og samið við Evrópumeistara Magdeburg um að leika með liðinu út yfirstandandi tímabil.

Hinn 39 ára gamli Aggefors lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en hefur þekkst boð um að hlaupa í skarðið hjá Íslendingaliði Magdeburg.

Samdi þýska félagið við Svíann vegna þess að svissneski markvörðurinn Nikola Portner var í vikunni settur til hliðar eftir að hafa fallið á lyfjaprófi, sem kveikti tafarlausa þörf fyrir nýjan markvörð.

Mun Portner ekki æfa né spila með Magdeburg á meðan rannsókn á máli hans stendur yfir.

Aggefors gat samið við Magdeburg utan félagaskiptaglugga þar sem hann var félagslaus, en sænski markvörðurinn lék með danska stórliðinu Aalborg frá 2016 til 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert