Vorum helvíti flottar

Eyjakonur fagna í leikslok í kvöld.
Eyjakonur fagna í leikslok í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason var ánægður með sínar stelpur í ÍBV er þær lögðu ÍR að velli í Vestmannaeyjum, 30:20, í fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil í handknattleik í kvöld.

Sigurður fór með sitt lið alla leið í úrslitaeinvígið gegn Valskonum fyrir ári síðan og nú stefnir allt í að hann mæti Valskonum í undanúrslitum Íslandsmótsins í ár.

„Ég bjóst ekki alveg við 10 marka sigri, en ég hafði trú á því að við myndum vinna leikinn. Ég er rosalega ánægður með að þetta var aldrei í hættu og við vorum helvíti flottar,“ sagði Sigurður við mbl.is, aðspurður hvort hann hefði átt von á svo stórum sigri fyrir leik. Hann var ánægður með frammistöðu síns liðs.

„Rosalega góð frammistaða, sérstaklega í upphafi leiks, við lögðum línurnar strax og ætluðum að spila frábæran varnarleik. Við fengum á okkur einhver níu mörk í fyrri hálfleik, samt ver Marta bara einhver fimm skot, þannig þær sáu ekki markið,“ sagði Sigurður en það er aðeins rangt munað hjá honum þar sem hans lið fékk á sig 12 mörk í fyrri hálfleik og þá varði Marta fjögur skot, það að fá á sig 16 skot á markið í einum hálfleik er þó vel gert og stuðlar að því að vinna leiki.

„Elísa var stórkostleg í vörninni, hún er orðin frábær í þessu hlutverki, ég ætla ekkert að taka samt einhvern einn leikmann út fyrir sviga, það spiluðu allar stóra rullu. Það er flott hjá öllum.“

ÍR-ingar fundu færi í hornunum og fóru grimmt inn þaðan, var það eitthvað upplegg hjá ÍBV að hleypa þeim þar inn?

Sigurður Bragason ræðir við sínar konur í leikhléi í kvöld.
Sigurður Bragason ræðir við sínar konur í leikhléi í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þær komu sér bara í fín færi í hornunum, þessi ÍBV vörn býður upp á þetta. Það er ekki sama að vera með Grétar Þór Eyþórsson í horni í vörninni eða þessar ungu stelpur sem við höfum, því það er virkilega erfitt að vera í horni í vörninni okkar. Við lögðum þó ekkert upp með að hleypa þeim inn úr hornunum enda eru þær með fína hornamenn,“ sagði Sigurður en var það planið að leita mikið í línusendingar í leiknum? Tveir markahæstu leikmenn leiksins voru allavega línumenn ÍBV, þær Ásdís Guðmundsdóttir og Elísa Elíasdóttir.

Elísa kannski meiri trukkur

„Já, en það má ekki gleyma því að við erum með besta línumann landsins í Elísu, við höfum átt Ásdísi inni, sem er gömul A-landsliðskona. Hún hefur ekki alveg verið með fullt sjálfstraust en hún var frábær í þessum leik, það hentar henni vel þegar þær fóru hærra. Ásdís er öðruvísi en Elísa þar sem Elísa er kannski meiri trukkur og vill standa blokk á meðan Ásdís losar sig vel inni á línunni. Þær voru frábærar og við erum með einhverjar 18 línusendingar í leiknum sem er stórkostlegt.“

Marta Wawrzynkowska náði sér ekki á strik í upphafi leiks en það hefur verið valdeflandi fyrir Sigurð að sjá hans lið ekki í neinu veseni þrátt fyrir það.

„Við töluðum um það í hálfleik og Marta talaði um það að hún þyrfti eiginlega ekkert að verja, við fengum bara á okkur einhver 9-10 mörk þannig það var ekki eins og Marta hefði verið léleg. Þær komu boltunum bara ekki framhjá Elísu, tvistunum eða Ester, þetta var bara frábær varnarleikur sem skilaði þessu forskoti í hálfleik.

Ég ætla ekkert að segja að við eigum Mörtu eitthvað inni, hún er alltaf upp á 10 og er langbesti markmaðurinn í þessari deild, það getur skipt máli þegar við förum lengra.“

Á von á þeim harðari í Gettóinu

Eru þessi 10 mörk munurinn á liðunum?

„Ég hugsa nú ekki, við höfum verið að vinna þær með 3 og 5 mörkum, mér finnst það nærri lagi. Þær voru ekki alveg á sínum besta leik, ég ætla að gefa þeim það, ég á von á þeim miklu harðari í Gettóinu.

Þetta er ekki munurinn, þessi tíu mörk, það er bara 1:0 og ég var að ítreka við stelpurnar að það er gott að vera 1:0 yfir en ég vil ekki fara í oddaleik. Ég vil klára þetta í Breiðholtinu og fá 8 daga hvíld fyrir einvígið við Val. Það er mikilvægt að fá það frí, ástandið á hópnum er samt mjög gott, annað en síðustu ár.

Við höfum alltaf verið í einhverjum meiðslum, það eru flestar heilar,“ sagði Sigurður að lokum en Sara Dröfn Richardsdóttir og Britney Cots eru enn fjarri góðu gamni.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var í fyrsta skiptið á leikskýrslu á leiktíðinni í dag en hún skoraði úr einu af sínum þremur vítaköstum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert