„Það er eins og það sé bannað að sýna tilfinningar,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, fyrirliði Hauka, í Punktalínunni eftir tap liðsins gegn ÍBV í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær.
Leiknum lauk með sex marka sigri ÍBV, 37:31, og ÍBV vann einvígið því samanlagt 2:0 og er komið áfram í undanúrslit.
Stefán Rafn, sem er 33 ára gamall, tilkynnti það eftir leikinn að skórnir væru komnir á hilluna eftir afar farsælan feril en hann var ósáttur með línuna sem dómararnir Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson lögðu í leiknum á Ásvöllum í gær.
„Það má gagnrýna okkur endalaust, alltaf, en ekki þá,“ sagði Stefán Rafn.
„Þetta er handbolti og þetta er leikur mistaka. Við gerum einhverjar handabendingar og fáum báðir tveggja mínútna brottvísun. Þetta snýst um tilfinningu fyrir leiknum líka og það væri hundleiðinlegt ef það væri engar tilfinningar í þessu,“ sagði Stefán Rafn meðal annars.