Þór frá Akureyri tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum umspils um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik með því að leggja Hörð að velli, 24:22, í oddaleik undanúrslita umspilsins á Ísafirði í kvöld.
Þór vann einvígið samanlagt 2:1 og mætir Fjölni í úrslitaeinvíginu.
Í kvöld var ljóst að mikið var undir enda var allt í járnum allan leikinn.
Staðan í hálfleik var 12:10, Herði í vil.
Í síðari hálfleik var áfram allt í járnum.
Þór var ekkert á því að leggja árar í bát og náði í tvígang að komast einu marki yfir, 16:15 og 17:16.
Hörður náði aftur vopnum sínum og naumri forystu en alltaf voru Þórsarar skammt undan.
Undir lokin voru það gestirnir frá Akureyri sem reyndust sterkari, náðu tveggja marka forystu í stöðunni 22:20 þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks og unnu að lokum dýrmætan tveggja marka sigur.
Brynjar Hólm Grétarsson fór á kostum í liði Þórs og skoraði 13 mörk.
Markverðir liðanna létu þá báðir vel að sér kveða þar sem Kristján Páll Steinsson varði 15 skot í marki Þórs.
Jonas Maier í marki Harðar varði 17 skot. Markahæstur Harðarmanna var Jhonatan Santos með sjö mörk.