Þorsteinn Leó Gunnarsson og markvörðurinn Brynjar Vignir Sigurjónsson áttu báðir góðan leik er Afturelding tryggði sér sæti í undanúrslitum úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær.
Afturelding vann Stjörnuna, 35:24, í Mosfellsbæ og mætir Valsmönnum í undanúrslitum.
Þorsteinn og Brynjar mættu til viðtals í Punktalínunni á Sjónvarpi Símans í gærkvöldi.
Hvernig leggst Vals einvígið í ykkur? Spurði þáttastjórnandinn Benedikt Grétarsson.
„Mjög vel, við erum að koma sterkir inn í undanúrslitin þannig ég er spenntur fyrir því einvígi,“ svaraði Þorsteinn Leó.
„Við eigum bullandi séns í þá, við erum að fara í það einvígi til að vinna þá,“ bætti Brynjar við.
„Ég fann það alveg á Gaupa, hann var pínu stressaður eftir þessa frammistöðu,“ bætti sérfræðingurinn Jóhann Gunnar Einarsson við en Valsarinn Gaupi [Guðjón Guðmundsson] lýsti leiknum í gærkvöldi.