Kemur alltaf auka kraftur með markvörslunni

Elmar Erlingsson sækir að marki FH-inga.
Elmar Erlingsson sækir að marki FH-inga. mbl.is/Óttar Geirsson

Elmar Erlingsson leikmaður ÍBV átti stórgóðan leik og skoraði 11 mörk þrátt fyrir að lið hans ÍBV hafi tapað með 5 marka mun gegn FH í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í handbolta.

Spurður út hver þeirra banabiti hafi verið í leiknum sagði Elmar þetta:

„Í fyrri hálfleik lendum við 5 mörkum undir og það er dýrt. Við spiluðum fína vörn en einhvern veginn náðu þeir að skora eftir langar sóknir og það er ferlega pirrandi. Sóknarlega vorum við ágætir, skorum alveg mikið af mörkum en þegar þú ert að elta allan leikinn þá tekur það gríðarlega orku."

Nú eruð þið lentir undir í einvíginu og mikilvægt að ná sigri í eyjum á fimmtudag. Hvað þarf til að ÍBV snúi dæminu við á fimmtudag?

„Við þurfum að spila leikinn á fimmtudag eins og við byrjuðum síðari hálfleik. Síðan kemur alltaf auka kraftur með markvörslunni eins og sést þegar við minnkum muninn í tvö mörk. Þá var Pavel að verja aðeins og þá færðist fjör í leikinn."

Þegar þið minnkið muninn í tvö mörk þá dettið þið svolítið aftur niður og FH gengur á lagið. Var orkan búinn á þessum tímapunkti?

"Við vorum allir að gefa okkar allt í leikinn og það gekk bara ekki upp í dag. Vonandi fáum við meira út úr okkar leik á fimmtudag, það er markmiðið. Það tekur gríðarlega orku að elta heilan leik," bætti Elmar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert