Valsmenn skrefi nær úrslitunum eftir stórsigur

Magnús Óli Magnússon með boltann í kvöld.
Magnús Óli Magnússon með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar

Valsmenn eru í afar vænlegri stöðu eftir öruggan sigur gegn Minaur Baia Mare frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikarsins í handknattleik karla á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk átta marka sigri Valsmanna, 36:28, en Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur hjá Valsmönnum í leiknum með sex mörk. Þá átti Björgvin Páll Gústavsson stórleik í marki Vals og varði 18 skot, þar af eitt vítakast.

Síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu eftir viku, sunnudaginn 28. apríl. Í úrslitaviðureigninni verður svo leikið heima og að heiman, sunnudaginn 18. maí og laugardaginn 25. maí, en sigurliðið úr einvíginu mætir annaðhvort Olympiacos frá Grikklandi eða Ferencváros frá Ungverjalandi í úrslitaleik.

Frábær á fyrstu mínútunum

Milan Kotrc skoraði fyrsta mark leiksins eftir tveggja mínútna leik en Benedikt Gunnar Óskarsson jafnaði metin með marki úr vítakasti á fjórðu mínútu.

Liðunum gekk illa að skora framan af og Björgvin Páll Gústavsson í marki Valsmanna var í miklu stuði á fyrstu mínútum leiksins.

Tjörvi Týr Gíslason kom Valsmönnum yfir, 2:1, eftir átta mínútna leik og þá virtist ísinn brotinn.

Ísak Gústafsson kom Val fjórum mörkum yfir, 8:4, eftir tæplega fimmtán mínútna leik og en Artem Kozikevych minnkaði muniunn í þrjú mörk. 9:6, á 18. mínútu.

Þá kom frábær kafli hjá Valsliðinu og Ísak kom þeim sjö mörkum yfir, 15:8, þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Gestirnir frá Rúmeníu voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og þeim tókst að minnka forskot Vals í fjögur mörk með tveimur mörkum á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan því 18:14, Val í vil, í hálfleik.

Valsmenn sterkari í síðari hálfleik

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti með Benedikt Gunnar Óskarsson fremstan í flokki en hann skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Valsmanna í hálfleiknum og kom þeim sjö mörkum yfir á nýjan leik, 24:17.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta og Ísak Gústafsson kom Valsmönnum átta mörkum yfir, 28:20, í fyrsta sinn í leiknum með frábæru skoti fyrir utan þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Allan Norðberg kom þeim svo níu mörkum yfir strax í næstu sókn eftir laglega markvörslu Björgvins Páls og Valsmenn með öll völd á vellinum.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta og Valsmenn voru áfram með öruggt forskot. Tudor Botea minnkaði muninn fyrir Minaur Baia Mare í sjö mörk, 32:25, þegar rúmlega fimm mínútur voru til leiksloka.

Björgvin Páll kom Valsmönnum níu mörkum yfir á nýjan leik, 35:26, með marki yfir allan völlinn þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Artem Kozakevych minnkaði muninn í átta mörk, 26:28, og reyndist það síðasta mark leiksins.

Valur 36:28 Minaur Baia Mare opna loka
60. mín. Robert Nagy (Minaur Baia Mare) fiskar víti Tuttugu sekúndur til leiksloka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert