Gamla ljósmyndin: Þorbjörn í skyttustöðunni

Morgunblaðið/Kristján Einarsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Valur leikur á morgun síðari leikinn gegn rúmenska liðinu Minaur Baia Mare í undanúrslitum Evrópubikars karla í handknattleik. Valur er í ágætri stöðu eftir sigur í fyrri leiknum hér heima 36:28. 

Íslensku liði hefur einu sinni tekist að komast í úrslit í Evrópukeppnum félagsliða en það tókst Valsmönnum árið 1980 og var það í sterkustu keppninni, Evrópukeppni meistaraliða. Valur tapaði þá fyrir þýska liðinu Grosswallsta­dt 21:12 í Ólymp­íu­höll­inni í München. 

Fleiri en Valsmenn hafa náð í undanúrslit í Evrópukeppnum félagsliða en það tókst einnig  Þrótturum, Víkingum og FH-ingum á níunda áratugnum. Í hlekknum hér fyrir neðan má lesa meira um Evrópuævintýri FH tímabilið 1984-1985. 

Í Gömlu ljósmyndinni er nú farið fjörtíu og fjögur ár aftur í tímann eða til undanúrslitanna í Evrópukeppni meistaraliða. Valur tók þá á móti spænska liðinu Atlético Madríd í undanúrslitum keppninnar og hafði betur 18:15 í síðari leiknum í Laugardalshöllinni og komst áfram á fleiri mörkuðum skoruðum á útivelli. 

Í hlekknum hér fyrir neðan má lesa meira um leikinn gegn gegn Atlético Madríd.

Á myndinni má sjá Þorbjörn Jensson lyfta sér upp fyrir framan vörn Atlético Madríd í troðfullri Laugardalshöllinni árið 1980. Á myndinni sést einnig Stefán Gunnarsson sem skoraði markið sem tryggði Val sæti í úrslitaleiknum. Myndina tók Kristján Einarsson sem myndaði leikinn fyrir Morgunblaðið. 

Myndin er athyglisverð meðal annars fyrir þær sakir að margir muna eftir Þorbirni sem línumenn seint á ferlinum en hann lék hins vegar framan af sem skytta eins og myndin gefur til kynna. 

Hér heima lék Þorbjörn einnig með Þór á Akureyri í mörg ár og lék einnig eitt tímabil í Svíþjóð. Þorbjörn lék 160 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 104 mörk en hann var þekktastur fyrir að vera mjög öflugur varnarmaður. Sem og allt Valsliðið sem fékk niðurnefnið Mulningsvélin eins og frægt er. 

Þorbjörn var fyrirliði landsliðsins sem hafnaði í 6. sæti á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984 og á HM í Sviss 1986. Á þessum árum myndaðist fyrir alvöru ástarsamband íslensku þjóðarinnar og karlalandsliðsins í handknattleik sem enn stendur þótt sambandið geti hitnað og kólnað eins og ástarsambönd gera gjarnan. 

Þorbjörn átti síðar eftir að verða landsliðsþjálfari og stýrði landsliðinu frá 1995 til 2001 eftir að hafa áður unnið allt sem hægt var að vinna hér heima sem þjálfari Vals. Valur varð fimm sinnum Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari undir hans stjórn.

Þorbjörn stýrði Íslandi á HM 1997 þegar liðið hafnaði í 5. sæti og er það besti árangur Íslands frá upphafi á HM í boltagrein. Ísland burstaði þá geysilega vel mönnuð lið í mótinu eins og Júgóslavíu og Spán, bæði með níu marka mun. Ísland féll úr keppni eftir spennuleik í 8-liða úrslitum gegn Ungverjum sem hafa stundum reynst ljón í veginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert