Valur er Íslandsmeistari kvenna í handknattleik árið 2024. Valur lagði Hauka, 28:25, í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins á Hlíðarenda í kvöld.
Valur vann þar með einvígið 3:0 og er Íslandsmeistari annað árið í röð. Valskonur unnu ÍBV einnig 3:0 á síðasta ári. Valur hefur nú orðið Íslandsmeistari alls 19 sinnum í kvennaflokki.
Í kvöld byrjuðu Haukar af feikna krafti og komust í 0:4, 1:5 og 2:6. Vörnin stóð vel, Margrét var traust í markinu og Valskonur virtust ráðvilltar í sóknaraðgerðum sínum.
Ekki var varnarleikurinn betri þar sem Haukar skoruðu úr nánast hverri sókn sinni. Þegar staðan var orðin 2:6 var Ágústi Þór Jóhannssyni, þjálfara Vals, nóg boðið og tók leikhlé.
Þar lét hann nokkur vel valin orð falla svo öll höllin heyrði. Virkaði þrumuræða Ágústs sem vítamínsprauta fyrir Val sem tók leikinn yfir með því að laga allt sem aflaga hafði farið í byrjun leiks.
Sóknarleikurinn var beinskeyttur, vörnin var geysilega þétt og Hafdís Renötudóttir svo gott sem lokaði markinu.
Valur sneri taflinu við í 9:7 og þá tóku Haukar leikhlé. Eftir að Valur komst í 10:8 í kjölfarið fór allt að smella hjá Haukum undir lok fyrri hálfleiks þegar gestirnir úr Hafnarfirði skoruðu fjögur mörk í röð.
Staðan þá orðin 10:12 en Valur átti síðasta orðið og leiddu Haukar því með einu marki, 11:12, í hálfleik.
Hafdís varði 11 skot í marki Vals í fyrri hálfleik á meðan Margrét varði sex skot í marki Hauka.
Í síðari hálfleik byrjuðu Haukar á því að komast þremur mörkum yfir, 11:14.
Valur tók þá við sér og jafnaði metin fljótlega í 14:14 og var staðan 16:16 eftir tæplega tíu mínútna leik í síðari hálfleik.
Þá sýndi Valur mátt sinn og megin, skoraði fimm mörk í röð og munurinn orðinn fimm mörk, 21:16.
Haukum tókst að laga stöðuna í 23:20 og minnka muninn niður í aðeins tvö mörk, 27:25, undir blálokin en komust ekki nær en það.
Valur sigldi að lokum þriggja marka sigri í höfn og tryggði sér um leið Íslandsmeistaratitilinn.
Hafdís átti stórleik í marki Vals og varði 17 skot, þar af tvö vítaskot. Markahæstar í liði Vals voru Thea Imani Sturludóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir með sex mörk hver.
Margrét varði átta skot í markinu hjá Haukum. Markahæst Hauka var Sara Odden með sjö mörk. Elín Klara Þorkelsdóttir bætti við sex mörkum.