Sturluð mæting og upplifun

Jóhannes Berg Andrason skýtur að marki Aftureldingar í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason skýtur að marki Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér leið vel. Auðvitað var þetta spennandi en mér fannst við vera með undirtökin og mér leið vel,“ sagði Jóhannes Berg Andrason leikmaður FH í samtali við mbl.is í kvöld.

FH hafði betur gegn Aftureldingu á útivelli, 28:27, og jafnaði úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmótinu í handbolta.

„Við mættum gíraðari í þennan leik, sýndum úr hverju við erum gerðir og skrúfuðum þetta upp. Við spiluðum góðan varnarleik og vorum þrusugóðir. Þetta er geggjað. Maður finnur hvað er mikið undir hjá báðum liðum og það er sturluð mæting. Þetta er upplifun,“ sagði hann.

FH-ingar hefðu verið með bakið upp við vegg með tapi í kvöld en þess í stað er einvígið hnífjafnt. „Það skiptir töluverðu máli að jafna. Ég hafði ekki einu sinni hugsað um að vera 2:0 undir. Það er gott að hafa klárað þetta og náð að jafna.“

Aron Pálmarsson sneri aftur í lið FH í kvöld eftir meiðsli og er ljóst að hann styrkir FH-liðið verulega. „Hann kemur með ákveðna ró og yfirvegun í þetta. Hann kann að klára leiki og taka réttar ákvarðanir á lokakaflanum,“ sagði Jóhannes um liðsfélaga sinn.

„Það var hrikalega mikilvægt að ná heimavallarréttinum aftur. Nú verður Krikinn fullur á sunnudaginn og það er alltaf geggjað,“ sagði Jóhannes.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert