Valur skrifaði nýjan kafla í íslenskri handboltasögu með því að tryggja sér Evrópubikarmeistaratitil karla í Aþenu á laugardaginn var.
Valur varð þar með fyrsta íslenska liðið til að vinna Evróputitil. Valur vann fyrri leikinn á heimavelli 30:26. Lokatölurnar í Aþenu urðu 31:27 og réðust úrslitin því í vítakeppni þar sem Valur vann 5:4.
Valsmenn stóðu í ströngu alla Evrópubikarkeppnina en þeir spiluðu 14 leiki.
Evrópubikarinn er öðruvísi heldur en Meistaradeildin og Evrópudeildin. Í Evrópubikarnum mætast tvö lið í hverr i umferð fyrir sig, frekar en að fjögur eða átta lið séu sett saman í einn riðil.
Mbl.is tekur saman Evrópuævintýri Valsmanna í heild sinni hér að neðan.
Valsmenn mættu fyrst litháíska liðinu Granitas Karys í fyrstu umferð keppninnar. Þar vann Valur fyrri leikinn á Hlíðarenda, 27:24, og seinni leikinn ytra, 33:28, og því 60:52 samanlagt.
Úlfur Páll Monsi Þórðarson fór mikinn fyrir Valsmenn og skoraði tíu mörk samanlagt í einvíginu.
Í 64-liða úrslitum voru fjögur íslensk lið en Afturelding, ÍBV og FH hefðu getað dregist gegn Valsmönnum.
Valsmenn mættu Pölva Serviti frá Eistlandi í 64-liða úrslitum Evrópubikarsins. Valur heimsótti eistneska liðið í fyrri leik liðanna og bar sigur úr býtum, 32:29.
Á heimavelli voru yfirburðir Valsliðsins sýnilegir en liðið vann með ellefu mörkum, 39:28, og samanlagt 71:57.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði ellefu mörk fyrir Val í einvíginu. FH og ÍBV komust einnig í 32-liða úrslit en Afturelding datt út.
Valur mætti Motor frá Úkraínu í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins. Valur vann aftur báða leiki. Þann fyrri 35:31 í Slóvakíu og seinn 33:28 í Valsheimilinu. Samanlagt 68:59.
Benedikt Gunnar fór á kostum í Slóvakíu og skoraði ellefu mörk. Heimafyrir skoraði Agnar Jónsson mest eða sjö mörk.
ÍBV datt þá út í 32-liða úrslitum en FH hélt áfram.
Valur mætti serbneska liðinu Metaloplastika Sabac í 16-liða úrslitum. Valur vann aftur báða leikina en sá fyrri fór 28:27 á Hlíðarenda og seinni 30:28 í Serbíu. Samanlagt 57:54.
Benedikt Gunnar skoraði 13 mörk í einvíginu líkt og Úlfur Páll Monsi sem skoraði þá tíu mikilvæg mörk í útileiknum.
FH datt úr leik í 16-liða úrslitum og var Valur því eina íslenska liðið eftir í keppninni.
Valsmenn mættu sterku rúmensku liði í átta liða úrslitum, Steaua Búkarest. Þá var stemning farin að myndast fyrir keppninni og héldu Valsmenn til að mynda blaðamannafund fyrir seinni leikinn.
Valur vann þann fyrri í Rúmeníu með eins marks mun, 36:35. Valur átti þá frábæran leik á Hlíðarenda og vann með sex mörkum, 36:30. Samanlagt 72:65.
Alexander Petersson fór á kostum í liði Vals og skoraði átta mörk í seinni leiknum. Í þeim fyrri skoruðu Benedikt Gunnar og Úlfur Páll sjö mörk hvor.
Valur mætti öðru rúmensku liði í undanúrslitum, Minaur Baia Mare.
Valsmenn áttu ekki í stökustu vandræðum með það einvígi og unnu fyrri leikinn með átta mörkum, 36:28, og þann síðari með sex mörkum, 30:24. Samanlagt 66:52.
Benedikt hélt stöðuleika sínum áfram og skoraði tíu mörk í einvíginu. Þá skoraði Andri Finnsson eitt mark á Hlíðarenda en níu úti í Rúmeníu.
Var Valur þar með kominn í úrslitaleik Evrópubikarsins þar sem liðið vann heimaleikinn á Hlíðarenda, 30:26. Benedikt Gunnar fór á kostum og skoraði 10 mörk.
Það forskot reyndist tryggja liðinu vítakeppni í seinni leiknum í Grikklandi því Olympiacos vann hann 31:27 eftir að hafa verið fimm til átta mörkum yfir mest allan tímann. Þar var Ísak Gústafsson markahæstur Valsmanna með átta mörk.
Valsmenn sigruðu í vítakastkeppni, 5:4, og lyftu Evrópubikarnum í leikslok.