FH er Íslandsmeistari í 17. skipti

Aron Pálmarsson fyrirliði FH með bikarinn í leikslok.
Aron Pálmarsson fyrirliði FH með bikarinn í leikslok. mbl.is/Arnþór

FH varð í kvöld Íslandsmeistari karla í handknattleik með því að sigra Aftureldingu, 31:27, í fjórða úrslitaleik liðanna í Mosfellsbæ.

FH-ingar unnu þar með einvígið 3:1 og eru Íslandsmeistarar í sautjánda skipti, og í fyrsta skipti í þrettán ár.

Það var mikið skorað og lítið varið í fyrri hálfleik. Afturelding skoraði fyrstu tvö mörk leiksins áður en gestirnir í FH jöfnuðu og komust yfir í stöðunni 3:2 fyrir FH.

Eftir þetta leiddi FH nánast allan hálfleikinn fyrir utan þau þónokkur skipti sem Aftureldingu tókst að jafna leikinn. Talsverður hraði og harka var í leiknum og voru liðin samtals 12 mínútur útaf í fyrri hálfleik. FH var 4 mínútur og Afturelding í 8 mínútur samtals.

FH-ingar fagna meistaratitlinum í leikslok.
FH-ingar fagna meistaratitlinum í leikslok. mbl.is/Arnþór

Markvarslan var ekki góð í fyrri hálfleik en Jovan Kukobat byrjaði í leikinn hjá Mosfellingum en var skipt út af fyrir Brynjar Vignir Sigurjónsson eftir um 18 mínútna leik án þess að hafa varið. Brynjar gerði hvað hann gat og tókst að verja 4 skot í fyrri hálfleik en Daníel Freyr Andrésson varði 7 skot í marki FH.

FH náði tvisvar sinnum tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik áður en þeim tókst að auka muninn í 3 mörk í stöðunni 16:13. Þann mun minnkuðu Mosfellingar í tvö mörk fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik 16:14 fyrir FH.

Markahæstur í liði Aftureldingar í fyrri hálfleik var Jakob Aronsson með 5 mörk líkt og Jóhannes Berg Andrason í liði FH.

Birgir Már Birgisson skorar eitt fjögurra marka sinna fyrir FH …
Birgir Már Birgisson skorar eitt fjögurra marka sinna fyrir FH í kvöld. mbl.is/Arnþór

Afturelding byrjaði síðari hálfleikinn en Blær Hinriksson skaut framhjá. FH skoraði hinsvegar úr sinni fyrstu sókn og þar var að verki Aron Pálmarsson og staðan orðin 17:14 fyrir FH. Hafnfirðingar komust síðan fjórum mörkum yfir í stöðunni 18:14.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sitt fyrsta mark í leiknum þegar hann minnkaði muninn í 18:15. Brynjar Vignir varði síðan í marki Aftureldingar og skoraði Þorsteinn Leó strax aftur og staðan orðin 18:16 fyrir FH.

Mosfellingar náðu að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 19:18 fyrir FH þegar Þorsteinn Leó skoraði sitt þriðja mark í leiknum.

Þorsteinn Leó Gunnarsson reynir skot að marki FH í leiknum …
Þorsteinn Leó Gunnarsson reynir skot að marki FH í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

FH jók muninn afur í tvö mörk og leiddu leikinn líkt og í fyrri hálfleik. Hafnfirðingar náðu 5 marka forskoti í stöðunni 24:19 fyrir FH eftir vel heppnað áhlaup gestanna. Þar kom Daníel Freyr sterkur inn og varði 3 skot í röð fyrir FH sem notfærðu sér meðal annars hraðaupphlaup.

Niðurstaðan úr þessu var að Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar tók leikhlé enda róðurinn farinn að þyngjast fyrir Aftureldingu.

Þegar 7 mínútur voru eftir af leiknum minnkuðu Mosfellingar muninn í fjögur mörk og staðan 26:22 fyrir FH. Þá tók Sigursteinn Arndal sitt næstsíðasta leikhlé til að stilla menn saman fyrir lokakaflan í leiknum.

Strax eftir leikhlé jók Birgir Már Birgisson muninn aftur í 5 mörk með sínu fjórða marki og staðan 27:22 þegar 6 mínútur voru eftir af leiknum. Þannig hélst munurinn út leikinn þar sem FH leiddi með 4-5 mörkum.

Mosfellingar reyndu hvað þeir gátu til að minna muninn og koma aftur spennu í leikinn en allt kom fyrir ekki og FH vann að lokum 4 marka sigur 31:27 og eru Íslandsmeistarar Karla í handbolta árið 2024.

Markahæstur í liði Aftureldingar var Jakob Aronsson með 7 mörk. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 6 skot og Jovan Kukobat 2 skot.

Markahæstur í liði FH voru Ásbjörn Friðriksson og Jóhannes Berg Andrason með 7 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 16 skot.

Við óskum FH að sjálfsögðu til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.

Afturelding 27:31 FH opna loka
60. mín. Blær Hinriksson (Afturelding) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert