Lögfræðingur, rakari og pípari í Evrópumeistaraliðinu

Óskar Bjarni laufléttur eftir Bjarmalandsförina til Aþenu.
Óskar Bjarni laufléttur eftir Bjarmalandsförina til Aþenu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir leikmenn í Evrópumeistaraliði Vals í handknattleik eru í vinnu eða námi. Þetta kemur fram í viðtali við þjálfarann Óskar Bjarna Óskarsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

„Í vetur spilaði meistaraflokkurinn marga leiki vegna velgengninnar í Evrópukeppni og ég skoðaði oft leiki yfir á daginn og klippti til atvik fyrir leikmennina. Auk þess æfðum við á fimmtudögum og föstudögum klukkan 12 í hádeginu. Þetta glæsilega hús hér á Hlíðarenda var tekið í notkun árið 2007 eftir miklar breytingar en það er í raun sprungið vegna fjölda iðkenda í Val. Með því að æfa klukkan 12 tvo daga í viku náðum við að hjálpa mikið til við nýtingu á salnum,“ segir Óskar Bjarni.  

Alexander Örn Júlíusson hefur verið einn besti varnarmaður deildarinnar í …
Alexander Örn Júlíusson hefur verið einn besti varnarmaður deildarinnar í mörg ár. Hann starfar sem lögfræðingur. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Þegar menn geta æft á miðjum dögum og eru Evrópumeistarar þá vaknar sú spurning hvort Valsliðið sé skilgreint sem atvinnumannalið? 

„Nei ég myndi aldrei skilgreina okkur sem atvinnumannalið en við höfum fengið spurningu sem þessa frá Handknattleikssambandi Evrópu. Allir leikmennirnir eru í boltanum með fram vinnu og Færeyingurinn Allan Norðberg vinnur til að mynda í Hlíðaskóla. Það mætti ef til vill kalla þetta hálf atvinnumennsku en tæplega þó. Í leikmannahópnum er lögfræðingur, rakari og pípari svo eitthvað sé nefnt. En það er alveg á hreinu að með tilkomu Valsmanna hf og Hlíðarenda ses hefur fylgt öryggi vegna þess að fólk getur treyst því að fá borgað fyrir sína vinnu. Það hefur hjálpað stjórnarmönnum og þjálfurum. En í handboltanum hef ég ekki trú á því að Valur borgi hærri laun en sum önnur félög gera og við höfum ramma utan um það sem farið er eftir,“ segir Óskar Bjarni meðal annars í Sunnudagsblaðinu. 

Viðtalið við Óskar Bjarna í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert