„Viðbrögðin við Evrópumeistaratitlinum eru stórkostleg og minna mig svolítið á viðbrögðin eftir Ólympíuleikana 2008,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Evrópumeistara Vals í handknattleik en hann var aðstoðarlandsliðsþjálfari þegar Íslendingar unnu til silfurverðlauna í Peking 2008.
„Allir eru að heilsa manni og knúsa og manni er óskað til hamingju í matvörubúðinni sem er bara gaman. Líklega hafa allir verið Valsarar akkúrat þennan dag vegna handboltans á Íslandi og íþróttalífsins. Auk þess eru móttökur eins og í Höfða og á Bessastöðum á dagskrá. Framundan er svo lokahóf Vals og maður kemst varla í að búa til nýtt lið fyrir næsta vetur því það er svo mikið að gera í fagnaðarlátunum,“ segir Óskar og glottir.
Óskar Bjarni hefur í aldarfjórðung komið að meistaraflokkum Vals annað hvort sem þjálfari eða aðstoðarþjálfari. Í þetta skiptið tók hann við stjórnartaumunum sumarið 2023. Þjálfari karlaliðs Vals á undan Óskari Bjarna var Snorri Steinn Guðjónsson en Snorra bauðst landsliðsþjálfarastarf, sem hann þáði, fyrir ári eða svo.
„Í fyrstu var ég ekki alveg á því að taka aftur við meistaraflokki Vals. Ein hliðin á málinu var sú að þreytandi yrði fyrir Benna [son hans Benedikt Óskar sem var lykilmaður í Valsliðinu] að vera með pabba sinn yfir sér öllum stundum. Einnig fannst mér einhvern veginn eins og ég væri að verða of gamall fyrir starfið. Til dæmis í samanburði við þjálfara sem virðast hafa komið svo ferskir inn í fótboltanum eins og Óskar Hrafn Þorvaldsson og Arnar Gunnlaugsson. En þá rifjaðist upp að þeir eru fæddir 1973, rétt eins og ég, enda spilaði ég fótbolta á móti þeim í yngri flokkunum. Ég er því ekkert sérstaklega gamall þjálfari, ég er bara búinn að vera svo lengi í þessu,“ segir Óskar Bjarni.
Viðtalið við Óskar Bjarna í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.