Aðalsteinn Eyjólfsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í handknattleik og um leið yfirmaður handknattleiksmála félagsins í fullu starfi.
Víkingur féll úr úrvalsdeild á síðasta tímabili og fær Aðalsteinn það verkefni að koma liðinu aftur upp í deild þeirra bestu.
,,Ég er fullur tilhlökkunar að koma heim og taka við þjálfun Víkings. Það er einnig spennandi og skemmtileg áskorun að taka við sem yfirmaður handknattleiksmála félagsins.
Víkingur er mjög stórt félag með mikla sögu í handboltanum og með fjölda iðkenda á öllum aldri. Ég skynja mikinn metnað í félaginu að komast aftur í fremstu röð í handboltanum,“ sagði hann í tilkynningu frá handknattleiksdeild Víkings.
Aðalsteinn hefur mikla reynslu sem handknattleiksþjálfari og hefur þjálfað í Þýskalandi og Sviss síðustu 18 ár við góðan orðstír.
Aðalsteinn varð tvisvar sinnum svissneskur meistari með Kadetten Schaffhausen og einu sinni bikarmeistari á árunum2020-2023.
Hann var valinn þjálfari ársins í Sviss árið 2023 og hefur einnig verið valinn þjálfari ársins í þýsku B-deildinni.
Síðast þjálfaði Aðalsteinn Minden í þýsku B-deildinni en var látinn taka pokann sinn í janúar síðastliðnum.
Aðalsteinn hefur einnig náð góðum árangri með félagslið á Íslandi á árum áður þar sem hann gerði bæði kvennalið Stjörnunnar og ÍBV að Íslands- og bikarmeisturum í handbolta.