„Hann vildi ekkert með mig hafa“

„Ég var aldrei inn í myndinni hjá honum,“ sagði handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í Dagmálum.

Anna, sem er 39 ára gömul, varð Íslandsmeistari í áttunda sinn á ferlinum með Val á dögunum þegar liðið hafði betur gegn Haukum í úrslitum Íslandsmótsins, 3:0.

Virti hans ákvörðun

Anna lék alls 102 A-landsleiki fyrir Ísland og fór á þrjú stórmót með liðinu en hún lék ekki marga landsleiki, seinni hluta ferilsins, og kom mörgum á óvart af hverju hún fékk ekki kallið í landsliðið.

„Gústi [Ágúst Jóhannsson] lokaði aðeins á mig eftir að ég eignaðist barn, honum fannst ég ekki vera í nægilega góðu formi, og það var bara hans ákvörðun og ekkert mál með það,“ sagði Anna.

Lífið er of stutt

„Hann vildi meina að þeir leikmenn sem væru að spila erlendis væru betri en ég. Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið sammála því en þetta var hans ákvörðun. Síðan tók Axel [Stefánsson] við, hann vildi ekkert með mig hafa og síðan tók Arnar Pétursson við,“ sagði Anna sem var því næst spurð að því hvort hún hafi íhugað að hætta að spila fyrir landsliðið þar sem hún var ekki valin í einhver ár.

„Ég hef lært það í gegnum tíðina að lífið er allt of stutt til þess að vera langrækin eða með kergju. Það eru bara ákveðnir hlutir sem þú getur stjórnað og ég hef þá bara reynt að reyna verða betri og sýna öllum, það hefur verið mín sýn á lífið,“ sagði Anna meðal annars.

Viðtalið við Önnu Úrsúlu í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Axel Stefánsson.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Axel Stefánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert