„Við vorum mikið í fjáröflunum og það er ákveðin rómantík fólgin í því,“ sagði handknattleiksmaðurinn og Evrópubikarmeistarinn Vignir Stefánsson í Dagmálum.
Vignir, sem er 33 ára gamall, varð Evrópubikarmeistari með Val á dögunum eftir afar dramatískan sigur gegn Olympiacos í vítakeppni í Aþenu.
Valsmenn tóku þátt í Evrópudeildinni í fyrra og í Evrópubikarnum í ár en það kostar bæði tíma og peninga að taka þátt í Evrópukeppnum fyrir íslensk handboltalið.
„Ég man vel eftir því, þegar við vorum að spila við Flensburg í fyrra, og það var fullt út úr dyrum á Hlíðarenda,“ sagði Vignir.
„Við ræddum það inn í klefa fyrir leikinn að við hefðum safnað sjálfir fyrir því að vera komnir á þann stað sem við værum komnir á.
Það er ákveðin rómantík sem fylgir því og þetta er litla Ísland í hnotskurn, sem gefur þessu aukavægi,“ sagði Vignir meðal annars.