Ísland byrjaði á sterkum sigri á HM

Katrín Anna Ásmundsdóttir á æfingu með A-landsliðinu.
Katrín Anna Ásmundsdóttir á æfingu með A-landsliðinu. mbl.is/Jóhann Ingi

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 20 ára og yngri hóf HM 2024 í aldursflokknum í Norður-Makedóníu á sterkum sigri gegn Afríkumeisturum Angóla, 24:19, í dag.

Ísland er þar með komið með tvö stig í H-riðlinum, þar sem heimakonur í Norður-Makedóníu og Bandaríkin eru líka og mætast í kvöld.

Ísland hóf leikinn af miklum krafti og komst í 4:0, 5:1 og 6:2.

Eftir það dró töluvert af íslenska liðinu og var Angóla búið að snúa taflinu við skömmu fyrir hálfleik þegar staðan var 8:9.

Ísland skoraði hins vegar síðasta mark fyrri hálfleiksins og staðan því jöfn, 9:9, í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki nægilega vel fyrir íslenska liðið því Angóla náði fljótt tveggja marka forystu, 11:13.

Angóla var áfram við stjórn og komst þremur mörkum yfir, 12:15 og 13:16.

Íslenska liðið tók yfir undir lokin

Íslenska liðið lagaði aðeins stöðuna en Angóla var enn yfir, 16:18, um miðjan síðari hálfleik.

Þá var Íslandi nóg boðið, skoraði þrjú mörk í röð og komst þannig yfir, 19:18.

Angóla jafnaði metin í 19:19 en eftir það tók Ísland leikinn alfarið yfir, skoraði fimm síðustu mörk leiksins og vann sterkan fimm marka sigur.

Katrín Anna Ásmundsdóttir var markahæst í liði Íslands með sjö mörk. Elín Klara Þorkelsdóttir bætti við fimm mörkum og Embla Steindórsdóttir skoraði fjögur.

Langmarkahæst í leiknum var Jorcela Tumba með 11 mörk fyrir Angóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert