Komnar í átta liða úrslitin á HM

Lilja Ágústsdóttir skoraði 13 mörk í dag.
Lilja Ágústsdóttir skoraði 13 mörk í dag. Ljósmynd/IHF

Sigurganga íslensku stúlknanna á heimsmeistaramóti U20 ára landsliða í handknattleik hélt áfram í Skopje í Norður-Makedóníu í dag þegar þær unnu sannfærandi sigur á Svartfjallalandi í milliriðli mótsins, 35:27.

Ísland er þar með komið í átta liða úrslitin en eftir tvær umferðir af þremur í milliriðli er Ísland með 4 stig, Portúgal með 3, Norður-Makedónía eitt og Svartfjallaland ekkert. Tvö efstu liðin fara í átta liða úrslit.

Íslenska liðið mætir Portúgal í lokaumferðinni á morgun og þar er efsta sæti riðilsins í húfi.

Ísland var undir nær allan fyrri hálfleikinn í dag, allt þar til liðið skoraði þrjú mörk í röð undir lokin og var yfir þegar flautað var til leikhlés, 15:14. 

Þegar staðan var 23:21, Íslandi í vil, komu aftur þrjú mörk í röð og eftir það átti Svartfjallaland ekki möguleika.

Lilja Ágústsdóttir átti sannkallaðan stórleik og skoraði 13 mörk fyrir íslenska liðið í dag og Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sex mörk. Elísa Elíasdóttir gerði 5, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1 og Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert