„Siðleysi og hroki“

Hannes Jón Jónsson
Hannes Jón Jónsson Ljósmynd/Westwien

Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard í Austurríki og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta segir Guðmund B. Ólafsson, formann HSÍ, hafa lítið gert gott fyrir íslenskan handbolta. Tilefnið er viðtal Guðmundar þar sem hann ver styrktarsamninga HSÍ við Arnarlax og Rapyd.

Guðmundur var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem hann ræddi bága fjárhagstöðu HSÍ og varði styrktaraðila sambandsins, Arnarlax og Rapyd, sem voru víða gagnrýndir.

Hannes Jón gefur lítið fyrir útskýringar Guðmundar í pistli sínum á Instagram síðu þjálfarans. Hannes kallar ummæli Guðmundar sorgleg og sakar Guðmund um siðleysi og hroka.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það lýsir ákveðinni firringu vegna þess að það er til fólk í heiminum sem er blessunarlega ennþá með ákveðin prinsipp og fjármagn og peningar brjóta ekki niður þessi prinsipp. Við erum að tala um íslenska náttúru. Við erum að tala um óafturkræfanlegan skaða á náttúruauðlind og dýrategund sem hefur verið í þúsundir eða milljónir ára að byggjast upp á Íslandi,“ sagði Hannes og á þar við starfsemi Arnarlax í sjókvíaeldi í fjörðum landsins.

„Ég held að Guðmundur B. Ólafsson hafi gert afskaplega lítið gott fyrir íslenskan handbolta og HSÍ. Ég held að það hafi orðið ofboðslega litlar breytingar þarna inni. Þegar maðurinn í brúnni kemur fram og segir að það sé afskaplega lítið að selja held ég að þetta sé komið gott og tími til að hleypa nýju fólki að sem er með hugmyndir og ástríðu, tilbúið að prófa eitthvað nýtt og hugsa út fyrir boxið og vonandi verður það fólk með ákveðin prinsipp og er ekki tilbúið að leggjast í duftið og selja sálu sína glæpafyrirtækjum“.

Eldræðu Hannesar má sjá hér að neðan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert