Fékk þungt höfuðhögg á HM

Elísa Elíasdóttir í leik með íslenska A-landsliðinu.
Elísa Elíasdóttir í leik með íslenska A-landsliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Elísa Elíasdóttir, leikmaður íslenska U20 ára landsliðsins í handknattleik, var borin af velli eftir að hún fékk þungt höfuðhögg í leik liðsins gegn Evrópumeisturum Ungverjalands í átta liða úrslitum HM 2024 í Skopje í Norður-Makedóníu í kvöld.

Handbolti.is greinir frá því að Elísa, sem leikur sem línumaður og er sterkur varnarmaður, hafi fengið höfuðhöggið eftir um sjö mínútna leik í síðari hálfleik.

Elísa var að verjast leikmanni Ungverjalands og lá óvíg eftir í kjölfar viðskipta þeirra, án þess þó að leikmanni Ungverja hafi verið refsað fyrir.

Þorvaldur Skúli Pálsson, sjúkraþjálfari liðsins, veitti henni aðhlynningu og bað svo um sjúkrabörur til þess að bera Elísu af velli.

Ekki liggur fyrir hvort hún hafi fengið heilahristing en það hefur Elísa, sem samdi nýverið við Val, áður upplifað í leik með þáverandi félagsliði sínu ÍBV fyrir tæpum tveimur árum og var lengi frá eftir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert