Magdeburg mætir báðum úrslitaliðunum

Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg eru heldur betur …
Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg eru heldur betur í sterkum riðli í vetur. Ljósmynd/@SCMagdeburg

Þýsku meistararnir Magdeburg verða í riðli með bæði Barcelona og Aalborg, liðunum sem mættust í úrslitaleik Meistaradeildar karla í handknattleik í vor, en dregið var í riðla fyrir keppni komandi vetrar í dag.

Barcelona varð Evrópumeistari með naumum sigri á Aalborg í úrslitaleiknum en Magdeburg mátti sætta sig við fjórða sætið í keppninni að þessu sinni.

Sextán lið fá keppnisrétt í Meistaradeildinni hverju sinni og er skipt í tvo riðla en leiknar eru fjórtán umferðir frá september og fram í mars. Eftir það tekur við útsláttarkeppni.

Íslendingar eru fjölmennir í Meistaradeildinni sem aldrei fyrr og margir „Íslendingaslagir“ eru því framundan á komandi vetri. Alls leika 12 Íslendingar með 8 liðum í deildinni og Guðmundur Þ. Guðmundsson er auk þess þjálfari Fredericia.

Riðlarnir eru þannig skipaðir:

A-riðill:
Wisla Plock, Póllandi (Viktor Gísli Hallgrímsson)
Veszprém, Ungverjalandi (Bjarki Már Elísson)
París SG, Frakklandi
Fredericia, Danmörku (Einar Þ. Ólafsson, Arnór Viðarsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari)
Füchse Berlín, Þýskalandi
Sporting Club, Portúgal (Orri Freyr Þorkelsson)
Dinamo Búkarest, Rúmeníu
Pelister, Norður-Makedóníu

B-riðill:
Aalborg, Danmörku
Magdeburg, Þýskalandi (Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson)
Barcelona, Spáni
Kielce, Póllandi (Haukur Þrastarson)
Pick Szeged, Ungverjalandi (Janus Daði Smárason)
Nantes, Frakklandi
HC Zagreb, Króatíu
Kolstad, Noregi (Sigvaldi Björn Guðjónsson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Sveinn Jóhannsson)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert