Guðjón Valur krækti í einn þann eftirsóttasta

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach. Ljósmynd/Gummersbach

Þýska handknattleiksfélagið Gummersbach hefur komist að samkomulagi við króatíska markvörðinn Dominik Kuzmanovic um að leika með karlaliðinu næstu fjögur ár.

Kuzmanovic er aðeins 21 árs og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frábæra frammistöðu með króatíska landsliðinu og félagsliðinu Nexe í heimalandinu á undanförnum árum.

Hefur fjöldi sterkra félaga rennt hýru augu til hans af þeim sökum en nú er ljóst að hann leikur með Gummersbach, þar sem Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari, næstu árin.

Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson leika með liðinu, sem tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í tólf ár á næsta tímabili.

Teitur Örn gekk til liðs við félagið í sumar. Fleiri sterkir leikmenn eru gengnir til liðs við félagið, þeirra á meðal franski leikstjórnandinn Kentin Mahé sem kom frá Veszprém í Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert