Naumt tap og Ísland spilar um sjöunda sætið

Lilja Ágústsdóttir skoraði 12 mörk í dag.
Lilja Ágústsdóttir skoraði 12 mörk í dag. Ljósmynd/IHF

Íslenska U20-ára landslið kvenna í handknattleik mátti sætta sig við naumt tap, 33:31, fyrir Svíþjóð í leik liðanna í dag sem skar úr um hvort þeirra myndi leika um fimmta sætið á HM 2024 í Skopje í Norður-Makedóníu.

Ísland leikur um sjöunda sætið við annað hvort Sviss eða Portúgal á meðan Svíþjóð leikur um fimmta sætið við annað hvort liðið.

Íslenska liðið fór betur af stað í dag og náði snemma þriggja marka forystu, 2:5. Svíar brugðust við með því að skora fimm mörk í röð og ná þannig tveggja marka forystu, 7:5.

Ísland jafnaði metin í 7:7 en eftir það var Svíþjóð með yfirhöndina, komst nokkrum sinnum þremur mörkum yfir og leiddi með tveimur mörkum, 17:15, í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum bitu íslensku stúlkurnar í skjaldarrendur og jöfnuðu metin í 22:22. Eftir það komst Ísland tveimur mörkum yfir, 25:23, en Svíþjóð var aldrei langt undan.

Áfram voru sveiflur í leiknum þar sem Svíar skoruðu fimm mörk í röð og komust í 28:25 en aftur tókst Íslendingum að jafna metin í 28:28.

Aftur skoraði Svíþjóð þrjú mörk í röð, Íslandi tókst að minnka muninn niður í aðeins eitt mark tvívegis en að lokum höfðu Svíar tveggja marka sigur.

Lilja Ágústsdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir Ísland er hún skoraði 12 mörk úr jafnmörgum skotum.

Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 12, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Embla Steindórsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert