Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins þrátt fyrir rafrænan þjófnað og birta á mbl.is á laugardögum.
Rússneski björninn var ein þeirra hindrana sem íslensku landsliðsmennirnir í handknattleik þurftu að yfirstíga á leið sinni að verðlaunum bæði á Ólympíuleikunum 2008 og á Evrópumótinu 2010.
Rússland var með firnasterk landslið í handknattleiknum eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Bæði karla- og kvennalandslið Rússa hafa nokkrum sinnum fagnað sigri á stórmótunum í íþróttinni.
Ísland mætti Rússlandi í öðrum leik sínum í milliriðli á EM 2010 í Austurríki. Leikurinn var fjörugur en Íslendingar stóðust atlögur Rússa og unnu í miklum markaleik 38:30 fyrir framan 4 þúsund áhorfendur í Vín. Sigurinn hafði mikið að segja fyrir íslenska liðið sem komst í undanúrslit ásamt Króatíu, Frakklandi og Póllandi.
Á meðfylgjandi mynd skorar Snorri Steinn Guðjónsson eitt marka Íslands í leiknum en hann var markahæstur ásamt Alexander Peterssyni með 7 mörk. Snorri er sem kunnugt er landsliðsþjálfari Íslands í dag. Í baksýn má sjá Róbert Gunnarsson herbergisfélaga Snorra í landsliðinu.
Myndina tók Kristinn Ingvarsson sem myndaði EM 2010 fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Ísland vann til bronsverðlauna á EM 2010.