„Við erum fyrst og fremst fótboltamenn,“ sagði handknattleiksmaðurinn og Evrópubikarmeistarinn Vignir Stefánsson í Dagmálum.
Vignir, sem er 33 ára gamall, varð Evrópubikarmeistari með Val á dögunum eftir afar dramatískan sigur gegn Olympiacos í vítakeppni í Aþenu.
Handboltamenn eru þekktir fyrir það að hita upp fyrir æfingar í fótbolta og er rík hefð fyrir upphitunarfótbolta á Hlíðarenda.
„Upphitunarfótboltinn er mjög mikilvægur og maður hefur alveg heyrt af því að önnur lið og landslið hafa kippt fótboltanum út af æfingum hjá sér, vegna meiðslahættu meðal annars,“ sagði Vignir.
„Þetta snýst að mörgu leyti um stemninguna og þetta er gott upp á móralinn að gera líka. Það eru flestir sem geta ekki neitt þannig að það er líka verið að hlæja og koma sér í stuð fyrir æfinguna sem er framundan,“ sagði Vignir meðal annars.