Gamla ljósmyndin: 13 mörk gegn stórliðinu

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í vikunni tilkynnti Stjarnan að Hanna Guðrún Stefánsdóttir verði Patreki Jóhannessyni til aðstoðar hjá liði Stjörnunnar í efstu deild kvenna í handknattleik á næsta tímabili. Hanna er meðal leikjahæstu leikmanna Íslandsmótsins en spreytir sig nú í þjálfarateymi í fyrsta skipti. 

Hanna átti hreint lygilega langan feril sem leikmaður en hann spannaði 28 ár í meistaraflokki. Hanna lét gott heita vorið 2023, þá 44 ára gömul, og enn í efstu deild. Hún lék með Haukum og Stjörnunni og varð fimm sinnum Íslandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari en Hanna á auk þess leiki í meistaraflokki í knattspyrnu með Haukum og FH. Erlendis lék hún með Tvis Holsterbro í Danmörku um tíma. 

Hanna var í stóru hlutverki í landsliðinu sem braut ísinn og kom Íslandi á stórmót kvennalandsliða í fyrsta skipti en lokakeppnin fór þá fram í Danmörku árið 2010. 

Í leik í undankeppninni um vorið árið 2010 átti Hanna þvílíkan stórleik í Laugardalshöllinni gegn firnasterku liði Frakklands og skoraði 13 mörk en Frakkar höfðu þó betur 27:24. Kristinn Ingvarsson tók meðfylgjandi mynd af Hönnu steytandi hnefann að fagna einu þrettán marka sinni en franski markvörðurinn má sætta sig við að sækja knöttinn í netið. 

Hanna gat verið mikil markamaskína enda eldfljót fram völlinn í hraðaupphlaupum. Þegar hún fékk tækifæri til að komast í hraðaupphlaup rigndi jafnan mörkum og fengu fleiri en Frakkar að kenna á því. Markaregnið í einum leik náði hámarki keppnistímabilið 2010-2011 þegar Hanna skoraði 22 mörk í sigri Stjörnunnar á ÍR 49:17. 

Hanna er næst markahæsta landsliðskonan frá upphafi með 458 mörk í 142 leikjum. Hún var sæmd gullmerki HSÍ fyrir framúrskarandi feril. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert