Varði víti í lokin og Ísland náði stigi

Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ísak Steinsson komu mikið við sögu.
Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ísak Steinsson komu mikið við sögu. Ljósmynd/HSÍ

Ísland og Portúgal skildu jöfn, 33:33, í gríðarlega spennandi leik í úrslitakeppni átta liða úm Evrópumeistaratitil karla 20 ára og yngri í handknattleik í Celje í Slóveníu í dag.

Íslenska liðið sýndi mikla seiglu á lokamínútunum þegar það vann fyrst upp fjögurra marka forskot Portúgala, úr 31:27 í 31:31, og svo úr 33:31 í 33:33. Skarphéðinn Ívar Einarsson jafnaði þegar sex sekúndur voru til leiksloka.

Portúgalar kræktu sér hins vegar í vítakast á síðustu sekúndu leiksins og  gátu tryggt sér sigurinn en Ísak Steinsson í marki Íslands gerði sér lítið fyrir og varði frá Correia Ferreira og tryggði Íslandi dýrmætt stig.

Ísland varð þar með fyrsta liðið til að taka stig af sterku liði Portúgals á þessu móti.

Elmar Erlingsson var markahæstur íslensku strákanna með 7 mörk en Össur Haraldsson og Reynir Þór Stefánsson skoruðu fjögur mörk hvor. Ísak varði 10 skot í markinu og var með 30 prósent markvörslu.

Spánn vann Austurríki, 37:26, í hinum leik riðilsins í dag og staðan er því tvísýn eftir fyrstu umferðina en tvö efstu lið riðilsins komast í undanúrslit.  Ísland mætir Austurríki á morgun og Spáni á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert