Lið Alfreðs í góðum gír rétt fyrir Ólympíuleikana

Lið Alfreðs Gíslasonar virðist vera á góðum stað.
Lið Alfreðs Gíslasonar virðist vera á góðum stað. AFP/Ina Fassbender

Þýska karlalandsliðið í handbolta lagði það ungverska, 33:29, í vináttuleik í Stuttgart í dag. Leikurinn var liður beggja liða í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í París.

Lukas Mertens var markahæstur í þýska liðinu, sem Alfreð Gíslason þjálfar, með sex mörk. Juri Knorr gerði fimm. Bence Bánhidi skoraði sex fyrir Ungverjaland.

Þýskaland er í A-riðli Ólympíuleikanna ásamt Króatíu, Japan, Slóveníu, Spáni og Svíþjóð. Ungverjaland er í B-riðli með Argentínu, Danmörku, Egyptalandi, Frakklandi og Noregi.

Þýska liðið virðist vera á góðum stað fyrir leikana því liðið vann sterkan sigur á Frakklandi, 35:30, í síðasta vináttuleik. Liðið mætir svo Japan í Stuttgart á sunnudag í lokaleik sínum fyrir Ólympíuleikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert