Sigur og meiðsli í síðasta leik hjá Alfreð

Alfreð Gíslason er á leið á Ólympíuleikana með þýska landsliðið.
Alfreð Gíslason er á leið á Ólympíuleikana með þýska landsliðið. AFP/Ina Fassbender

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska karlalandsliðinu í handknattleik, lögðu Japan að velli, 35:25, í vináttulandsleik sem fram fór í Stuttgart í gær.

Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir Ólympíuleikana í París en þýska liðið vann Ungverjaland og Frakkland í vináttuleikjum þar á undan.

Justus Fischer og Tim Hornke skoruðu sex mörk hvor fyrir þýska liðið en áhyggjuefni var að markvörðurinn öflugi Andreas Wolff fór meiddur af velli eftir 20 mínútna leik.

Þjóðverjar mæta Svíum í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikum á laugardaginn kemur og síðan Japönum á mánudagsmorgun. Króatía, Spánn og Slóvenía eru einnig í riðlinum en tólf þjóðir leika í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna og er skipt í tvo riðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert