Ísfirðingar ná í annan Japana

Kenya Kasahara, leikmaður Harðar, reynir að stöðva Aron Pálmarsson í …
Kenya Kasahara, leikmaður Harðar, reynir að stöðva Aron Pálmarsson í leik á HM fyrir nokkrum árum. AFP

Hörður á Ísafirði mun tefla fram tveimur japönskum handknattleiksmönnum á komandi keppnistímabili.

Landsliðsmaðurinn Kenya Kasahara verður áfram á Ísafirði en hann hefur framlengt samning sinn þar til tveggja ára. Hann er nú í Frakklandi og keppir með Japönum á Ólympíuleikunum.

Landi hans, Kenta Isoda, er kominn til Harðar frá Wakunaga í Japan en Harðarmenn skýrðu frá því í dag. Hann er línumaður, rétt eins og Kasahara.

Þá hefur Hörður fengið til sín örvhenta serbneska skyttu, en Djordje Colovic hefur einnig samið við Ísfirðingana. Hann er 32 ára og lék síðast með AEK Aþenu í Grikklandi en einnig með liðum eins og Tatran Presov í Slóvakíu, Slask Wroclaw í Póllandi og Ademar León á Spáni.

Harðarmenn leika í 1. deildinni eins og á síðasta tímabili en þeir spiluðu í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni tímabilið 2022-23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert