Handboltamaðurinnn Hafsteinn Óli Ramos Rocha leikur líklega með landsliði Grænhöfðaeyja á næsta heimsmeistaramóti.
Gangi það eftir mun hann leika þar gegn landsliði Íslands.
Hafsteinn Óli er fæddur á Íslandi en er ættaður frá Grænhöfðaeyjum og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands. Hann hefur leikið með Fjölni, HK og Aftureldingu og gekk í raðir Gróttu í sumar.
Fjölmiðillinn Criolosports á Grænhöfðaeyjum skýrir frá þessu og segir að þessi hávaxni 24 ára gamli leikmaður sé nú staddur í Sao Vicente á eyjunum þar sem hann sé að fá í gegn ríkisborgararétt þar.
Lið Grænhöfðaeyja kemur saman í nóvember fyrir lokaundirbúning sinn fyrir HM 2025 sem fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi í janúarmánuði.
Grænhöfðaeyjar eru í G-riðli keppninnar ásamt Íslandi, Slóveníu og Kúbu og fyrsti leikurinn er einmitt á milli Íslands og Grænhöfðaeyja í Zagreb í Króatíu 16. janúar.