Danir hefndu sín á Frökkum með stæl

Mathias Gidsel var magnaður í liði Dana í kvöld.
Mathias Gidsel var magnaður í liði Dana í kvöld. AFP/Damien Meyer

Danska karlalandsliðið í handknattleik átti magnaðan leik gegn Evrópumeisturum Frakklands í fyrsta leik beggja liða á Ólympíuleikunum í París í kvöld. 

Danmörk vann leikinn með afgerandi mun, 37:29, en Frakkar unnu einmitt Dani í úrslitaleik Evrópumótsins í Þýskalandi fyrr á árinu. 

Liðin eru þau tvö bestu í handbolta karla um þessar mundir en Frakkar eru Evrópu- og Ólympíumeistarar á meðan að Danir eru heimsmeistarar.

Danir eru þar með með tvö stig líkt og Noregur og Egyptaland en Frakkar eru án stiga líkt og Argentína og Ungverjaland. 

Nikola Karabatic sækir að Niklas Landin markverði Danmerkur sem átti …
Nikola Karabatic sækir að Niklas Landin markverði Danmerkur sem átti magnaðan leik. AFP/(Damien Meyer

Frakkar byrjuðu leikinn betur og komust mest fimm mörkum yfir, 9:4. Þá var ekki aftur litið hjá danska landsliðinu. 

Danir voru komnir yfir þegar að liðin gegnu til búningsklefa, 18:17, og í seinni hálfleik var danska liðið miklu betra og vann að lokum átta marka sigur. 

Mathias Gidsel var magnaður í liði Dana en hann skoraði ellefu mörk, líkt og Simon Pytlick sem átti einnig stórleik. 

Niklas Landin varði þá 15 af 33 skotum sem hann fékk á sig og var þar með 45& markvörslu. 

Hjá Frökkum skoraði Hugo Descat mest eða sjö mörk. 

Danir mæta Egyptalandi í næsta leik B-riðilsins en Frakkland mætir Noregi. 

Danir syngja þjóðsönginn.
Danir syngja þjóðsönginn. AFP/Damien Meyer
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert