Dagur tók toppsætið af Alfreð

Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta.
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska landsliði karla í handbolta sigruðu Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu, 31:26, í A-riðli á Ólympíuleikunum í París í dag.

Þýskaland vann fyrstu tvo leiki liðsins og var á toppi riðilsins með fjögur stig en Króatía var fyrir leikinn með tvö stig. Fjögur lið af sex komast upp úr riðlinum og eins og staðan er núna er Króatía með fjögur stig í fyrsta sæti og Þýskaland með jafn mörg í öðru sæti.

Króatía var yfir í hálfleik, 15:13, eftir sterka byrjun en liðið var lengst af í forystu í fyrri hálfleik og komst mest þremur mörkum yfir. Liðið bætti í í seinni hálfleik og þýska liðið komst ekki nálægt því að jafna þegar leið á en Króatía komst mest sex mörkum yfir.

 Ivan Martinovic var markahæstur í króatíska liðinu með níu mörk úr 14 skotum og þeir Domagoj Ducnjak, Mario Sostaric og Luka Cindric skoruðu fimm mörk hver. Dominik Kuzmanovic var með 12 varin skot, 32% markvörslu.

Johannes Golla var markahæstur fyrir Þýskaland með átta mörk úr níu skotum. Renars Uscins var svo næstur á eftir honum með fjögur mörk.

Næsti leikur Króatíu er á föstudaginn gegn Svíþjóð og Þýskaland mætir Spáni sama dag.

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert