Rúnar framlengir í Þýskalandi

Rúnar Sigtryggsson þjálfar Leipzig áfram.
Rúnar Sigtryggsson þjálfar Leipzig áfram. Ljósmynd/@DHfK_Handball

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari karlaliðs Leipzig í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til loka tímabilsins 2026-27.

Fyrri samningur Rúnars átti að renna út næsta sumar.

Rúnar hefur þjálfað Leipzig frá því í nóvember árið 2022 þegar hann tók við liðinu í erfiðri stöðu við botninn í þýsku 1. deildinni.

Rétti Rúnar gengi liðsins við svo um munaði og hafnaði Leipzig að lokum í 11. sæti. Á síðasta tímabili hélt liðið áfram að bæta sig og hafnaði í áttunda sæti deildarinnar.

Leipzig er Íslendingalið þar sem Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson, sonur Rúnars, leika með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert