Tap í milliriðli á EM en vonin lifir

Dagur Árni Heimisson í leik með KA.
Dagur Árni Heimisson í leik með KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Íslenska drengjalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri mátti sætta sig við tap fyrir Spáni, 27:32, í annarri umferð milliriðils H á EM 2024 í Podgorica í Svartfjallalandi í dag.

Ísland vann fyrsta leik sinn í millriðlinum í gær, 34:29 gegn Svíþjóð, og heldur öðru sæti riðilsins sem dugar til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Ísland mætir Noregi, sem hefur tapaði fyrir bæði Svíþjóð og Noregi í milliriðlinum, í lokaumferðinni á fimmtudag og tryggir sér sæti í undanúrslitum með sigri.

Í dag var íslenska liðið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði til að mynda fimm marka forystu í tvígang. Staðan var 13:11, Íslandi í vil, í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í byrjun síðari hálfleiks en þegar leið á hann tókst Íslandi að slíta sig ögn frá í stöðunni 22:20.

Eftir að Ísland komst í 24:23 var sem leikur liðsins hrundi þar sem Spánn klykkti út með níu mörkum gegn aðeins þremur hjá íslenska liðinu og niðurstaðan því að lokum fimm marka sigur Spánverja.

Ágúst Guðmundsson var markahæstur í liði Íslands með níu mörk og Dagur Árni Heimisson bætti við átta mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert