Ísland í undanúrslit á EM

Ágúst Guðmundsson og Garðar Ingi Sindrason voru markahæstir hjá Íslandi …
Ágúst Guðmundsson og Garðar Ingi Sindrason voru markahæstir hjá Íslandi í dag. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska drengjalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri tryggði sér sæti í undanúrslitum EM 2024 í Podgorica í Svartfjallalandi í dag með því að leggja Noreg örugglega að velli, 31:25, í lokaumferð milliriðils H.

Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í undanúrslitum mótsins þar sem liðið mætir annað hvort Ungverjalandi, Danmörku eða Serbíu.

Svíþjóð vann milliriðil H og Ísland hafnaði í öðru sæti. Spánn situr hins vegar eftir með sárt ennið eftir tap fyrir Svíþjóð í dag, en öll liðin enduðu með fjögur stig.

Íslensku drengirnir mættu ákveðnir til leiks í dag og náðu fljótt undirtökunum. Þegar leið á fyrri hálfleikinn jókst forysta Íslands jafnt og þétt og varð munurinn mestur níu mörk í stöðunni 17:8.

Hálfleikstölur voru 17:9 og útlitið því afar gott. Í síðari hálfleik hélt íslenska liðið uppteknum hætti og komst nokkrum sinnum tólf mörkum yfir.

Íslensku drengirnir slökuðu aðeins á klónni undir lokin án þess að þeir norsku hafi velgt þeim nokkuð undir uggum og niðurstaðan að lokum þægilegur sex marka sigur.

Ágúst Guðmundsson var markahæstur í liði Íslands með sex mörk. Garðar Ingi Sindrason bætti við fimm mörkum og Harri Halldórsson skoraði fjögur mörk.

Jens Sigurðarson fór á kostum í markinu og varði 13 skot. Var hann með rúmlega 48 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert