„Aron Pálmarsson hefur gert fátt annað í lífinu“

Aron Pálmarsson varð Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu FH í fyrsta …
Aron Pálmarsson varð Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu FH í fyrsta sinn á síðustu leiktíð. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég held að hausinn á Aroni Pálmarssyni sé bara í mjög góðu standi,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari karlaliðs FH í handknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi HSÍ á Grand Hótel í Reykjavík í gær.

FH er spáð deildarmeistaratitilinum í úrvalsdeild karla á komandi keppnistímabili en liðið er ríkjandi Íslands- og deildarmeistari en Aron snéri heim til Íslands og gekk til liðs við FH eftir fjórtán ár í atvinnumennsku.

„Aron Pálmarsson hefur gert fátt annað í lífinu en að tengja saman bikara og verja þá á sínum ferli. Hann þekkir ekkert annað en að vinna og það er frábært að vera með þannig samsettan hóp sem að markmiðið er alltaf að vinna bikara. Það er frábært vinnuumhverfi að starfa í,“ sagði Sigursteinn.

Þjálfarar vilja halda sínu

Aron glímdi við sinn skerf af meiðslum á síðustu leiktíð og missti til að mynda af nokkrum leikjum í úrslitakeppninni.

„Aron er í frábæru standi. Við vorum mjög skynsamir með hann í fyrra og lærðum helling líka. Hann nýttist okkur ótrúlega vel en við vorum líka mjög meðvitaðir um það að við þurftum að passa vel upp á hann. Hann er í frábæru líkamlegu standi, leggur virkilega hart að sér á æfingum og er sannur atvinnumaður ef svo má segja,“ sagði Sigursteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert