Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Valsmanna var nokkuð svekktur með úrslitin gegn ÍBV í fyrsta leik liðsins í Íslandsmóti karla í handbolta. Valsmenn voru undir megnið af leiknum en komu til baka í lokin og náðu forystu í stöðunni 31:30 en Eyjamenn jöfnuðu í 31:31 og þar við sat. Við ræddum við Óskar strax eftir leik.
Niðurstaðan er jafntefli í fyrsta leik tímabilsins í Íslandsmótinu. Ertu ánægður með úrslitin í kvöld?
„Nei eins og leikurinn var heilt yfir þá vorum við alltaf að elta. Við vorum samt komnir með frumkvæði þegar við komumst yfir. Fyrsta tilfinningin er auðvitað sú að ég hefði viljað klára þetta en svona miðað við frammistöðuna varnarlega og dauðafærin sem við förum illa með þá fannst mér við ekki eiga neitt skilið."
Hvað tekur þú út þessum fyrsta leik?
„Það má alltaf búast við allskonar úr svona fyrstu leikjum sem þarf að leysa. Við lentum í basli með Kára og svo þessa ungu stráka. Mér fannst við aldrei ná svona alvöru frumkvæði nema bara þegar á reyndi í lokin. Það sem ég tek helst út úr þessu er svona sigurvegarakarakter í okkur að koma til baka þremur mörkum undir og komast yfir og eiga bara eiginlega að vinna þetta. Það er samt ýmislegt sem við þurfum að laga og fara yfir, það er ljóst."
Agnar Smári Jónsson kemur oft mjög sterkur inn af bekknum. Hefði hann átt að koma fyrr inn á í kvöld?
„Já jafnvel. Agnar er líka oft góður þegar hann byrjar. Hann er líka rosalega góður í klefanum og reynist mér mjög vel á öllum sviðum. Hann er klár og klókur. Hann kom mjög sterkur inn í síðasta leik og líka hér í kvöld. Síðan er alltaf spurning hvort hann eigi að spila meira. Það er eins og með marga aðra maður er alltaf að meta og endurmeta."
Þú skiptir Jens Sigurðarsyni út fyrir Arnar Þór Fylkisson í markinu. Einhver sérstök ástæða fyrir því?
„Nei. Jens fer með okkur út til Króatíu. Hann er ennþá í þriðja flokki og einn efnilegasti markvörður landsins. Hann spilar með yngri landsliðum. Það þarf bara að passa upp á hann því hann þarf að lyfta og djöflast.
Ég var mjög ánægður með hans innkomu í síðasta leik og stóð sig frábærlega með u18 landsliðinu og uppalinn hér hjá okkur. Hann mun spila eitthvað í vetur en hann þarf að hafa fyrir því. Þetta er Valur og þú færð ekkert gefins," sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.