Ekki skrítið að þetta hafi farið svona

Perla Ruth Albertsdóttir verst Rut Jónsdóttur í kvöld.
Perla Ruth Albertsdóttir verst Rut Jónsdóttur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við náðum aldrei að sýna okkar rétta andlit í dag,“ sagði landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún og samherjar hennar hjá Selfossi máttu þola tap fyrir Haukum, 32:20 í 1. umferð úrvalsdeildarinnar í handbolta á Ásvöllum í kvöld.

Selfoss er nýliði í deildinni og reyndist silfurliðið frá því á síðustu leiktíð vera of sterkt.

„Það var viðbúið að þetta yrði erfitt. Við erum búnar að bíða í átján mánuði eftir þessum fyrsta leik í efstu deild aftur. Liðið okkar er svolítið mikið breytt. Eðlilega var þetta erfitt. Við höfum náð einum leik á móti úrvalsdeildarliði, á móti ÍBV,“ sagði Perla.

Sara Sif Helgadóttir varði gríðarlega vel í upphafi leiks og skoraði Selfoss aðeins eitt mark á fyrstu 18 mínútunum.

„Sara lokaði á okkur. Við skutum hrikalega illa og hún var góð á sama tíma. Það skrifast á stress og óöryggi hjá okkur. Þetta var fyrsti leikur, í sjónvarpinu og margir ungir leikmenn að spila. Það er ekki skrítið að þetta hafi farið svona.

Við verðum að byggja ofan á það sem við gerðum vel í kvöld og við viljum bæta okkur með hverjum leiknum. Þetta var eitt spark og nú höldum við áfram,“ sagði hún.

Haukar voru með níu marka forskot eftir 18 mínútna leik og því kannski ekki alslæmt að tapa með tólf mörkum þegar uppi var staðið.

„Á einhverjum tímapunkti hverfur stressið og okkur fer að vera alveg sama. Það er það sem okkar liði vantar. Það var ekki að hjálpa okkur í byrjun að það voru allar skíthræddar og þorðu ekki að skjóta á markið.

Við erum enn að púsla liðinu saman. Katla er nýkomin inn og hún er okkar aðalsóknarmaður. Það eru fleiri leikmenn að fá stór hlutverk. Eðlilega tekur þetta tíma,“ sagði hún og hélt áfram:

„Við vissum að við værum ekki að koma inn í þennan fyrsta leik og vinna með tíu mörkum, eins og við erum vanar því að gera undanfarið ár. Við erum að vinna í okkar málum og þetta var fyrsta skrefið,“ sagði Perla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert