„Er það ekki markmiðið hjá öllum þjálfurum?“

Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Er það ekki markmiðið hjá öllum þjálfurum?“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs Hauka í handknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi HSÍ á Grand Hótel í Reykjavík í vikunni.

FH er spáð deildarmeistaratitlinum í úrvalsdeild karla á komandi keppnistímabili og er Haukum spáð öðru sætinu en liðið hafnaði í 5. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins eftir tap gegn ÍBV, 2:0.

„Ég er mjög til í það að fara vinna einhverja bikara. Ég hef alltaf trú á mínu liði og ég er mjög ánægður með strákana. Þessi spá kemur mér kannski aðeins á óvart, svona ef við horfum til þess hvernig síðasta tímabil þróaðist hjá okkur. Á sama tíma erum við með mjög gott lið og við ætlum okkur að sýna það í vetur. Við þurfum fyrst og fremst að ná upp stöðugleika,“ sagði Ásgeir Örn.

Draumur að fara í úrslit

Ásgeir Örn tók við þjálfun Hauka í nóvember árið 2022 og er því að fara inn í sitt þriðja tímabil sem þjálfari liðsins.

„Liðið er á góðum stað og við erum búnir að undirbúa okkur vel í sumar. Þú rennur alltaf aðeins blint í sjóinn, í þessum fyrstu leikjum, en ég er bara sáttur með standið á hópnum og liðinu. Strákarnir eru búnir að leggja mikið á sig og ég horfi bjartsýnn fram veginn.“

FH og Haukar hafa aldrei mæst í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins en eins og áður sagði er liðunum spáð efstu tveimur sætunum í deildinni í vetur.

„Fyrst og síðast væri það draumur að fara alla leið í úrslitaeinvígið. Að vinna FH í úrslitum væri auðvitað ennþá meiri draumur og það yrði auðvitað veisla fyrir alla handboltaáhugamenn. Mér er samt nokkuð sama hverjum við mætum í úrslitum en við ætlum okkur klárlega þangað,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert