FH og Fram áttust við í fyrstu umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri FH 27:23. Leikið var í Kaplakrika í Hafnarfirði.
Leikurinn fór vel af stað og komst FH í 3:1 áður en Fram jafnaði í stöðunni 3:3. Þá tóku Íslandsmeistararnir aftur við sér og náðu fjögurra marka forskoti í stöðunni 8:4 og leiddu eftir það allan fyrri hálfleikinn.
Um miðjan hálfleikinn fór að bera á mikið af sóknarmistökum hjá báðum liðum. Voru leikmenn ýmist að henda boltanum útaf eða skjóta framhjá úr slökum færum.
FH náði mest 6 marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 14:8 en þann mun minnkaði Fram niður í 4 mörk áður en fyrri hálfleik lauk.
Staðan í hálfleik 14:10 fyrir FH.
Markahæstur í liði FH í fyrri hálfleik var Ásbjörn Friðbjörnsson sem átti stórgóða innkomu og skoraði hann 5 mörk á stuttum kafla. Daníe Freyr Ágústsson varði 11 skot í marki FH.
Í liði Fram var Reynir Þór Stefánsson allt í öllu í fyrri hálfleik og skoraði hann 5 mörk. Arnór Máni Daðason og Breki Hrafn Árnason vörðu sitthvor 2 skotin í fyrri hálfleik.
Fram mættu beittir inn í seinni hálfleikinn og byrjuðu á því að minnka muninn í tvö mörk í stöðunni 15:13. Þá tók leikmenn FH aftur við sér og juku muninn í 5 mörk í stöðunni 20:15 og má þar helst þakka Daníel Frey fyrir frábærar markvörslur.
Leikmenn Fram gáfust aldrei upp og héldu áfram að reyna saxa á forskot FH en þeim tókst aldrei að komast undir 2-3 marka múrinn. Þegar um 15 mínútur lifðu leiks var staðan 21:18 fyrir FH og munurinn þrjú mörk. Það sem helst munaði um fyrir FH var góð breidd og dreifð markaskorun á meðan Fram þurfti að treysta mikið á þá Reyni Þór Stefánsson og Ívar Loga Styrmisson en Rúnar Kárason náði sér enganveginn á strik í leiknum.
En leikmenn Fram gáfust ekki upp og þegar 12 mínútur lifðu leiks gerður þeir enn eitt áhlaupið á lið FH og freistuðu þess að minnka muninn. Það tókst þeim næstum því þegar Reynir Þór minnkaði muninn í eitt mark í stöunni 22:21. Það gerði hann aftur í stöðunni 23:22 og um 10 mínútur eftir af leiknum.
FH náði aftur upp forskoti með tveimur mörkum í röð frá þeim Símóni Michael Guðjónssyni og Jakobi Martin Ásgeirssyni. Í kjölfarið varði Daníel Freyr Andrésson í næstu sókn Fram og fékk FH tækifæri til að ná 4 marka forskoti. Það tókst ekki og brunuðu Framarar í hraðaupphlaup sem Reynir Þór skoraði úr og minnkaði muninn í tvö mörk. Staðan 25.23 fyrir FH.
Síðustu 5 mínútur leiksins sýndi Aron Pálmarsson mátt sinn og megin þegar hann skoraði tvö mörk í röð af miklu harðfylgi ásamt því að Daníel Freyr varði enn eitt skotið og gerður þeir í raun út um leikinn með því að koma FH í 4 marka forskot í stöðunni 27:23.
Það má í raun segja að leikmenn FH hafi gert sjálfum sér erfitt fyrir í þessum leik því í hvert sinn sem þeir náðu upp góðu forskoti var eins og þeir slökuðu á og gæfu eftir sem hleypti Fram aftur inn í leikinn.
Svo fór að FH vann góðan sigur í fyrsta leik sínum á þessu Íslandsmóti 27:23.
Markahæstur í liði FH var Aron Pálmarsson með 7 mörk og varði Daníel Freyr Andrésson 17 skot, þar af eitt vítaskot.
Í liði Fram var Reynir Þór Stefánsson með hvorki meira né minna en 10 mörk og varði Arnór Máni Daðason 8 skot í marki gestanna.