Frábært að hafa Aron á svona tímapunktum

Sigursteinn Arndal er þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal er þjálfari FH. mbl.is/Eyþór Árnason

Íslandsmeistarar FH í handbolta karla hófu titilvörn sína á sigri í Kaplakrika í kvöld þegar liðið vann Fram 27:23.

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var heilt yfir ánægður með frammistöðu sinna leikmanna í kvöld þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá honum strax eftir leik.

Voru þetta sanngjörn úrslit í kvöld?

„Já ég held það nú. Við vorum að mæta góðu liði Fram. Ég er ánægður með varnarleikinn og markvörsluna að mestu. Við getum bætt okkur í sókn og hraðaupphlaupum en við erum bara í upphafi tímabils og þetta er tíminn þar sem við þurfum að bæta okkur í hverri einustu viku."

Mætti segja að lið FH hafi gert sér erfitt fyrir í ljósi þess að þið komist nokkrum sinnum í gott forskot en slakið svo á og hleypið Fram aftur inn í leikina?

„Já en aftur þá erum við bara í fyrsta leik á tímabilinu. Við verðum að bera virðingu fyrir öllum liðum í deildinni og Fram er gott lið sem er bara erfitt. Það er bara búið að lið geti farið fyrirfram inn í leiki og ætlað að valta yfir það. Við þurfum berjast í hverri einustu vörn, hverri einustu sókn og í öllum leikjum. Ef við gerum það þá vitum við að við getum unnið hvern einasta leik."

Eitthvað sem þér finnst standa sérstaklega upp úr í ykkar leik í kvöld?

„Já eins og ég sagði áðan þá er ég ánægður með varnarleikinn og markvörsluna hjá Danna (Daníel Freyr Andrésson). Hann var frábær í leiknum. Síðan komu ungir strákar inn í þennan leik og stóður sig frábærlega eins og t.d. Ingvar og Garðar."

Það má segja að fyrirliðinn Aron Pálmarsson hafi veitt liði Fram náðarhöggið þegar hann skoraði tvö mörk í röð með einni markvörslu frá Danna. Er Aron að koma vel undan sumrinu?

FH-ingurinn Símon Michael Guðjónsson skýtur að marki Fram í leiknum …
FH-ingurinn Símon Michael Guðjónsson skýtur að marki Fram í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Aron er í góðu formi og hann gerir sér alveg grein fyrir sínu hlutverki. Það eru fullt af leikmönnum í FH sem geta klárað leiki en ég neita því ekki að það er frábært að hafa Aron á svona tímapunktum eins og þú varst að lýsa."

Er breiddin nægilega mikil í liði FH til að verja titlana frá því í fyrra og bæta jafnvel einum öðrum við?

„Já, við erum á þeim stað núna þar sem við erum að byggja upp breiddina og til þess erum við að gefa ungum leikmönnum tækifæri til þess að gera þá nægilega góða. En já ég hef trú á að breiddin í liðinu sé nægilega mikil til að takast á við þetta tímabil sem er framundan. Þetta er samt langur vetur sem er framundan og mikið álag þannig að það er kannski asnalegt að vera svara þessari spurningu fyrirfram," sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert