Hann var aldrei á leið til Eyja

Framarinn Magnús Öder Einarsson reynir að komast fram hjá FH-ingnum …
Framarinn Magnús Öder Einarsson reynir að komast fram hjá FH-ingnum Jóhannesi Bergi Andrasyni. mbl.is/Árni Sæberg

Þó að Einar Jónsson þjálfari Fram hafi ekki verið ánægður með tap gegn FH í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld sagði hann margt gott hafa komið út úr leiknum og margt jákvætt sem hægt er að byggja á.

Spurður út í hvort úrslitin í leiknum hefðu verið sanngjörn svaraði Einar því játandi þó seinni hálfleikurinn hjá hans mönnum hafi verið mjög góður. Spurður út í hvað hafi vantað uppá í leik Fram sagði Einar þetta:

„Ég var að vonast eftir aðeins betri frammistöðu í fyrri hálfleik en mér fannst við góðir í seinni hálfleik, sérstaklega varnarlega. Það voru fullt af góðum köflum í seinni hálfleik en við vorum sjálfum okkur verstir þegar við gátum jafnað en þá köstum við boltanum útaf og þess háttar. En það var margt jákvætt í þessu þrátt fyrir tap."

Er Fram langt frá sínu besta svona eftir fyrsta leik?

„Já við eigum eftir að bæta okkur mikið og fá klassa leikmenn inn í hópinn sem eru fjarverandi. Við erum ekki komnir eins langt og FH í ferlinu þannig að við eigum bara eftir að verða betri."

Þið minnkið muninn niður í eitt mark þegar það eru tæplega 10 mínútur eftir en ykkur tekst aldrei að jafna. Það voru tveir menn sem báru liðið uppi en það voru þeir Reynir Þór Stefánsson og Ívar Logi Styrmisson. Það vantaði talsvert upp á hjá þinni helstu skyttu, Rúnari Kárasyni ekki satt?

Einar Jónsson þjálfari Fram.
Einar Jónsson þjálfari Fram. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Skotin voru ekki að detta hjá honum, það er alveg rétt. Hann steig samt upp í seinni hálfleik á köflum en við vorum heldur ekki að hjálpa honum nægilega mikið að komast í góðar stöður. En jú þetta var svolítið stöngin út hjá honum í dag. Ég hef samt engar áhyggjur af Rúnari og hann á bara eftir að vaxa eftir því sem á líður."

Það var samt margt gott í ykkar leik ekki satt?

„Jú klárlega. Mér fannst seinni hálfleikurinn flottur. Markvarslan kom inn og varnarleikurinn var flottur. Þeir þurftu eitt stykki Aron Pálmarsson til að vinna þennan leik."

Sterkar sögusagnir hafa verið um að Rúnar Kárason hafi hugsað sér til hreyfings eftir síðasta tímabil og jafnvel verið á leiðinni aftur til ÍBV fyrir þetta tímabil. Er eitthvað til í þessum sögum?

„Nei hann var aldrei á leiðinni til Vestmannaeyja. Hann er búinn að vera okkar aðal sprauta frá því að tímabilið kláraðist og til dagsins í dag hann er sá sem hefur leitt hópinn í allt sumar og í haust. Þannig að hann var aldrei á leiðinni til Vestmannaeyja," sagði Einar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert