Rosalega gaman að vera komin aftur á völlinn

Rut Jónsdóttir í mikilli baráttu við Perlu Ruth Albertsdóttur í …
Rut Jónsdóttir í mikilli baráttu við Perlu Ruth Albertsdóttur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var rosalega gaman,“ sagði handboltakonan Rut Jónsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í Haukum sigruðu nýliða Selfoss á heimavelli, 32:20, í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í handbolta á Ásvöllum í kvöld.

Rut lék ekkert á síðustu leiktíð þar sem hún var í barneignaleyfi og var hún að spila sinn fyrsta leik í um það bil eitt og hálft ár í kvöld.

„Það er rosalega gaman að vera komin aftur á völlinn og það var gaman að byrja þetta svona. Það er margt sem ég hefði persónulega viljað gera betur en ég geri mér grein fyrir því að ég er nýkomin til baka og ég á langt í land áður en ég kemst í mitt fyrra form,“ sagði Rut.

Haukaliðið náði snemma tíu marka forskoti og var Selfoss ekki líklegt til að jafna eftir það. Rut hrósaði markverðinum Söru Sif Helgadóttur sérstaklega í leikslok en hún lék afar vel.

„Mér fannst gaman að sjá þennan flotta hóp standa sig vel. Við vorum frábærar í vörn, sérstaklega í byrjun, og Sara var stórkostleg í markinu. Það er gaman að vera hluti af þessum hóp og byrja svona sterkt.

Vörnin í byrjun var að virka sérstaklega vel og Sara lokaði þar fyrir aftan. Við vorum stöðugar, keyrðum vel og sóknin var fín. Þetta var flott frammistaða,“ sagði Rut.

Rut og áðurnefnd Sara hafa bæst í Haukaliðið sem endaði í öðru sæti Íslandsmótsins á síðustu leiktíð. Hópurinn er því orðinn ansi sterkur og spennandi.

„Þetta er mjög skemmtilegur hópur og þetta er góð blanda. Við erum nokkrar sem erum aðeins eldri. Þetta eru stelpur sem hafa verið frábærar með unglingalandsliðunum á stórmótum. Þessar stelpur eru hungraðar í að ná árangri. Þær halda mér á tánum, æfa vel og leggja mikið á sig,“ sagði Rut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert