Fram reyndist ofjarl Stjörnunnar

Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram í kvöld.
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Fram vann afskaplega öruggan sigur á Stjörnunni, 33:22, í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld.

Strax virtist ljóst í hvað stefndi þegar Fram komst í 5:0 í upphafi leiks en Stjarnan kom til baka og skoraði fjögur mörk í röð.

Aftur náði Fram hins vegar undirtökunum og var fimm mörkum yfir, 11:6, þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

Munurinn var svo sex mörk, 19:13, í hálfleik.

Í síðari hálfleik var Fram með öll völd á vellinum. Heimakonur bættu einungis í og niðurstaðan að lokum 11 marka sigur.

Markahæstar hjá Fram voru Alfa Brá Hagalín, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Sóldís Rós Ragnarsdóttir með sjö mörk hver.

Hjá Stjörnunni var Eva Björk Davíðsdóttir markahæst með sex mörk.

Þrátt fyrir stórt tap áttu báðir markverðir Stjörnunnar stórleik fyrir gestina. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 18 skot og var með 43,9 prósent markvörslu og Sigrún Ásta Möller varði sex skot og var með 37,5 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert